Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016
" Orka er smitandi "
28.7.2016 | 17:13
Þegar við erum jákvæð og einblínum á það góða í lífinu, erum þakklát fyrir littlu hlutina og sjáum góðu punktana í tilverunni gengur okkur mun betur í lífinu.
Það sem við sendum frá okkur kemur tilbaka aftur.
Ef við erum í góðri og fallegri orku löðum við að okkur slíka orku og erum þá um leið að hækka tíðnina okkar. Við verðum heilsuhraust sterkari og öruggari.
Við erum öll orka og eins þekkjum við hvernig við getum smitað út frá okkur.
Ef við erum glöð og hamingjusöm verða aðrir í kringum okkur glaðir og hamingjusamir því orka er smitandi.
Það er auðvitað ekkert betra en vera nálægt fólki með jákvæðan huga og fólki sem er þakklátt fyrir allt það góða í lífinu. Það bókstaflega liftir öllu upp.
Foreldrar sem ala börn sín upp með hrósi og uppbyggilegum samræðum eru að skapa einstaklinga sem munu vegna vel í lífinu.
Ef við málum okkur regnboga munu börnin okkar mála sinn eigin regnboga á lífsleiðinni.
Kennari sem er jákvæður og sér það góða sem býr í barninu, hrósar fyrir littlu hlutina, jafnvel þó barnið hafi aðeins gert eitthvað lítið vel, getur gefið ótrúlegan styrk og sjálfstraust til að halda áfram að ná árangri.
Uppbyggilegur kennari er því með ótal verkfæri til að búa til einstaklinga sem munu sækja framhaldsnám af miklum áhuga.
Við erum eins og rósagarður. Ef vel er um okkur hugsað náum við að blómstra og ef við fáum tækifæri til að blómstra getum við gert ótrúlega hluti í lífinu.
Að trúa á sjálfan sig gefur svo jákvæða orku sem gefur okkur mátt sem fleytir okkur áfram í lífinu. Sumir segja að trúin flytji fjöll.
Við stofnum fyrirtæki eða förum léttilega í gegnum atvinnuviðtal og fáum nýja vinnu. Við treystum okkur jafnvel til að fara í skóla á gamals aldri.
Við erum fær í flestan sjó og þegar við erum á þessum góða stað erum við ómeðvitað að laða að okkur nýtt fólk. Fólk í velgengni.
Hugurinn er gríðalega sterkur og þegar við hugsum um það sem við viljum fá og trúum að okkur takist að ná markmiðum okkar erum við um leið að styrkja ónæmiskerfið og heilsuna.
Þetta heitir jákvætt flæði sem flæðir með okkur.
Bloggar | Breytt 14.8.2016 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)