Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Hversu fullkominn viltu vera?

Á þeim árum sem ég hef verið að dáleiða hef ég komist að því að margir eru haldnir fullkomnunaráráttu.

Það getur verið erfitt og orkufrekt að eltast við fullkomnun og flest vitum við að enginn er fullkominn og það er í besta lagi að gera mistök.

Það eru þó margir sem þurfa að vera fullkomnir og þeir eru snillingar í að leita fólk uppi sem er ófullkomið.

 Fullkomnunarárátta birtist í ýmsum myndum. Sumir mæta henni af og til og aðrir lifa með henni.

Það er erfitt að vera fullkominn og því fylgir streita. Sá sem setur gífurlega orku í allt sem hann gerir byggir upp kvíða því hann þarf að sjálfsögðu að gera betur næst. Hann stefnir alltaf á meira og þegar toppnum er náð er aðeins ein leið fær og hún er niðrá við.

Sá fullkomni er sérlega duglegur að gefa öðrum ráð því hann veit oftast betur. Hann forðast þó langar samræður og á erfitt með að rökræða og verður auðveldlega reiður.

Sá fullkomni er sjaldan í núinu og á erfitt með að njóta. Hann liggur á sólarströnd að plana næstu utanlandsferð þar sem hann ætlar að vera á betra hóteli, nær ströndinni.

Hann á erfitt með að hlægja og gleðjast með hinum því hann gleymdi að greiða fyrir drykkinn á hótelinu áður en hann fór út og hann vill að sjálfsögðu ekki vera ófullkominn.

Sá fullkomni á erfitt með samskipti sem skipta verulegu máli því hann vill ekki gera mistök og velur því oftast að hafna sjálfum sér frekar en einhver annar geri það. Hann hefur svo auðvitað áhyggjur af því að hitta manneskjuna út í búð.

Sá fullkomni þarf ekkert að kynnast nýju fólki vel því hann veit ekki hvar hann hefur það og svo eru flestir ekki nógu góðir en hann á samt akkúrat þannig vini og hann talar um þá.

Hann talar sjaldan um sína eigin fortíð eins og hún var og velur frekar að tala um aðra. Hann segir þó aldrei frá hversu latur makinn sé því líf hans er fullkomið eins og það er.

Einn daginn er sá fullkomni kominn yfir fertugt, langþreyttur og orkulaus og einmitt þannig sér hann að þegar botninum er náð er aðeins ein leið fær og hún er upp á við.

Hann ákveður því að breyta lífi sínu til betri vegar.


Ekki benda á mig

Hversu oft höfum við bent á einhvern sem hefur gert eitthvað á okkar hlut? Verið í leit að sökudólgum.

Við höfum lent í leiðindum, svikum, kynnst fólki á síðastliðnu ári sem er ólíkt okkur. 

Að leita að vandræðum í öðrum er eins og að leita að nál í heistakki. Það er nefnilega tilgangslaust.

 

Árið mitt 2016 var dásamlegt og það hefði ekki getað verið betra því ég átti bæði gott og erfitt ár. Hefði ég eingöngu fengið það góða hefði ég að sjálfsögðu ekki lært neitt og er ég þakklát fyrir lærdóminn. Stundum langar mig auðvitað að allt gangi bara vel en ég sem móðir, kennari, óperusöngvari og dáleiðari gæti líklega hvorki hjálpað sjálfri mér né öðrum hefði ég lifað á bleiku skýi. það hljómar samt undur vel að ferðast um á bleiku skýi með marenskökur og freyðivínsglas í hendi og jafnvel eiga maka sem sér fyrir öllu. Að sjálfsögðu væri það þægilegt.

En hvað myndi slíkt líf gefa mér?

Myndi ég verða betri manneskja og afslappaðri? Myndi ég sem óperusöngkona syngja meira og hætta öllu hinu?

 

Hvar liggur ástríðan?

Hún liggur einmitt í lífinu eins og það er. Hún liggur í mér, vinum mínum, fjölskyldu, þakklætinu, litlu hlutunum,  tónlistinni og meðferðargeiranum.

Í tæp 6 ár hef ég helgað lífi mínu meðferðargeiranum þar sem ég hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Að starfa þannig getur verið orkufrekt, gaman, spennandi og gefandi.

Ég tel mig vera góðan dáleiðara þar sem ég er reynslumikill orkubolti og sátt við eigið líf.

Ég leita ekki að sökudólgum og ég er þakklát fyrir alla þá ófullkomnu aðila sem komu við í lífi mínu síðastliðið ár og ég hlakka til að hitta meira af allavegana fólki á nýja árinu 2017. Fólki sem er ólíkt mér en stefnir í sömu átt, í átt að ljósinu. 

Hvar er annars hamingjan?

Hamingjan býr í okkur sjálfum. 

Við getum aldrei orðið hamingjusöm með öðrum fyrr en við elskum okkur sjálf. Að elska sjálfan sig er ekki sjálfselska og eigingirni heldur velgengni. Að elska og virða sjálfan sig gerir okkur stærri, býr til möguleika og opnar ótal tækifæri til að lifa lífinu lifandi. Að leita að sökudólgum gerir okkur lítil.

Verum þakklát fyrir lífið og litlu hlutina því þannig löðum við að okkur velgengni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband