Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

Streitu árás

Ábyrgð gefur streitu merki um að hefja árás.

 

Í morgun varð ég fyrir óskemmtilegri reynslu þegar ég var að skutla syni mínum í vinnuna. Ég þurfti að hægja á mér og stoppa í ca. 5 sekúndur og hleypa stráknum út og þar sem stöðvunarskylda er á þessum stað hefur mér fundist í lagi að stoppa á einum andardrætti.

Ég sá í baksýnisspeglinum að mögulegur árásamaður var við stýrið fyrir aftan mig. Við gætum kallað hann stress. Stress var byrjaður að reiðast af því ég hægði á mér og áður en ég stoppaði bílinn var hann byrjaður að flauta.

Hann var í vinnugalla og líklega á leið í vinnuna. Klukkan var orðin 8.27 svo kannski hefur stress átt að vera mættur kl 8.30, en af því ég þurfti 5 sekúndur til að hleypa stráknum út var ég orðin sökudólgur. Það var mér að kenna að hann yrði seinn.

Ég sá að ekki var í boði að hleypa stráknum út við þessar aðstæður og engin önnur leið fær til að hleypa honum út þar sem engin stæði eru í boði á þessum stað svo ég ákvað að keyra upp á gangstétt til að stress kæmist fram úr mér án þess að þurfa að draga andann djúpt.

Það sem var mest ógnandi við þennan unga mann var að hann stoppaði við hlið mér í nokkrar sekúndur og sendi mér ljótt, hatursfullt augnráð. Þessi maður var á að giska 18-20 ára gamall.

Ég hugsaði með mér að ef stress ætlaði sér að byrja æviferilinn sinn á þennan hátt myndi hann líklega brenna út fyrir 35 ára afmælisdaginn sinn.

Kannski höfum við öll lent í því að vera að flýta okkur og flautað á einhvern sem var fyrir okkur, en hvað með hatur og ógnandi augnráð? Augnráð sem gerir unga manninn að ofbeldismanni.

Kannski lærði hann að vera ógnandi eins og foreldrar hans. kannski er þetta lærð hegðun. Kannski er hann samt bara góði strákurinn inn við beinið sem ber mjög mikla ábyrgð. Ábyrgðin fyllir mælinn og stress fer af stað. Stress hefur fengið merki frá ábyrgð að nú megi það hefja árás.

Það er auðvitað mikil ábyrgð að vera ungur maður byrjaður að vinna og það er best að vera fullkominn. Það er betra að rústa deginum og byrja hann á vondan hátt frekar en að mæta of seint. Það er best að vera fullkominn. Ég gæti ímyndað mér að ungi maðurinn hugsaði á þennan hátt.

Hvernig verður orkan þá yfir daginn? Verður hann enn orkumikill um kl 2 eða kl 5? Ef hann ætti börn, gæti hann sótt þau úr leikskólanum kl 5? Gæti hann leikið við þau í klukkutíma eftir vinnu og skroppið svo út í búð að kaupa í matinn kl 6? Gæti hann eldað kl 7? Hvernig yrði hann mögulega kl 10? Gæti hann yfir höfuð sofnað?

Nú geri ég mér fulla grein fyrir að stress er kannski bara stressaður af og til og flesta daga er hann í góðum gír. Hann gæti jafnvel hafa séð eftir að hafa brugðist við á þennan hátt eða hann gæti enn verið að hugsa illa til mín.

Jú, ég eyðilagði daginn fyrir honum því ég var ekki fullkomin eins og hann. Ég gerði mistök því ég stoppaði bílinn á einum andardrætti. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband